Snæsniglar

Ég er ekki viss hvort það sé til íslenskt heiti yfir fyrirbrigðið, en eftir enska heitinu Snowsnail eða Snow Snail dettur mér í hug annað hvort snæsnigill eða snjósnigill. Ég hef líka séð nafnið Snow Tunnel, Snow Roller eða Snow Rollers. Málið snýst um það þegar snjór rúllar áfram og myndar snigil eða ammoníta-lagaða snjóköku. Þetta hljómar voða lítilfjörlegt, en það sem ég er að velta fyrir mér og um leið að spyrja um er hvort lesendur hafi séð svona á snævi þöktu láglendi eftir hvassviðri samhliða hláku. Ég sá nefnilega svona fyrirbrigði í Hvalfirði í fyrra. Tún voru þakin svona snæsniglum, 10-20 cm í þvermál og u.þ.b. 7-10 cm sverir. Stefnan var öll sú sama og undan vindátt. Verst að ég var ekki með myndavél.

Þetta heiti á einnig við snjóbolta sem rúlla niður brattar snjóhlíðar og safna utan á sig. Það hafa flestir séð í sólbráð eða hláku upp til fjalla.

Hvað um það, það væri gaman að vita hvort einhver eigi mynd af þessu einkennilega og sjaldgæfa fyrirbrigði.


Úlfur og gíll, rosabaugar og endurskin

Rosabaugur við Kitzsteinhorn í Austurríki.

Daufur úlfur bærir á sér - rétt hjá Flachau í Austurríki.

Endurvarp í þoku á Grafenberg við Wagrain, rétt hjá Flachau.

Í skíðaferð í Austurríki brá oft við í fjalllendinu að rosabaugur myndaðist kringum sólina. Ég var m.a. í um 3.000 metra hæð á Kitzsteinhornjökli nálægt Zell am See og þar var mikill ískristall í loftinu. Hvarvetna glitraði á ísinn í loftinu umhverfis og utan um sólina var daufur rosabaugur. Síðar í ferðinni, nálægt Flachau, var þó nokkuð um halo-myndanir samhliða ískristalþoku. Þar sá ég annan hvorn, úlfinn eða gílinn, en aldrei báða í einu á baugnum. Á Hyperphysics er ótrúlega greinagóð skýring á prismuspegluninni sem þessu veldur og góð sýnishorn af raunverulegum dæmum.

Sjá líka hér á Vísindavefnum.


Venus og máninn í kröppum dansi

Á leiðinni yfir Hoek van Holland við Ermasund brá þessari tignalegu sýn fyrir í suðvestur af okkur ferðalöngunum. Þetta var glæsilegasta tunglsetur sem ég hef séð. Þetta var 20. janúar s.l., á laugardagskveldi um klukkan18.30 og rúmlega klukkutími í tunglsetur. Nýtt tungl í steingeitinni, tæplega tveggja daga gamal og sigðin nam um 3% af kringlunni. Venus var einstaklega skær og nokkurn vegin hinu megin við sólu miðað við sporbrautarstöðu. Merkúr er reyndar þarna líka neðarlega til hægri, en sést því miður ekki í mistrinu.

Enn neðar, undir sjóndeildarhring, beint undir tunglinu, er McNaugt halastjarnan á leið sinni á sporbraut um sólu. Núna er hún komin "undir" sólina (sporbrautaflöt sólkerfisins) orðin mjög dauf og á leið frá okkur.


Tunglmyrkvi 3.-4. mars

Eða "The Dark Side of the Moon is actually red"

Koma McNaugt (sjá Astronomy Picture of the Day) um daginn rak mann af stað með að athuga næstu viðburði á stjörnuhvelfingunni. Tunglmyrkvinn 3.-4. mars ætti að falla undir þann flokk , en þá gengur tunglið inn í skugga jarðar á laugardagskvöldið 3. mars og úr honum aftur rétt upp úr miðnætti. Á vef NASA er tímataflan sett upp miðað við heimstíma (UT) sem er í raun Greenwich klukkan okkar óbreytt.

Hálfskuggi hefst: 20:18:11 UT

Deildarmyrkvi hefst: 21:30:22 UT

Almyrkvi hefst: 22:44:13 UT

Almyrkvi: 23:20:56 UT

Almyrkvi endar: 23:57:37 UT

Deildarmyrkvi endar: 01:11:28 UT

Hálfskuggi endar: 02:23:44 UT

Tunglið kemur upp kl. 18.24 á laugardaginn og rétt fyrir kl. 20 er það í háaustri og um 7° yfir sjóndeildarhringnum. Kl. 20.18 gengur tunglið inn í hálfskuggann (penumbra) og þar með dregur jörðina fyrir sólu séð frá yfirborði tunglsins. Þar með hefst rúmlega 6 klukkustunda myrkvun tunglsins og endar rétt fyrir hálf þrjú aðfararnótt sunnudagsins.


Hápunktur almyrkvans er nákvæmlega kl. 23.20 og er tunglið þá orðið föl-appelsínugult eða koparlitað. Tunglmyrkvi er ekki eins og sólmyrkvi, þegar hrein og skýr tunglskífa gengur fyrir sólu. Vegna eðlismunar milli sólar, jarðar og tunglsins, þá er skugginn af jörðinni á tunglið "óhreinn" ef svo mætti að orði komast. Geislar sólarinnar sem sleikja yfirborð jarðar fara í raun í gegnum lofthjúp hennar með þeim afleiðingum að blátt litróf ljósins sundrast í allar áttir en rauðu geislarnir halda áfram. Lofthjúpurinn brýtur þannig upp ljósið og síar bláa hluta þess frá. Rauðu geislarnir halda áfram, sumir beinustu leið en aðrir brotna í lofthjúpnum og sveigja inn í skuggann og lýsa tunglið upp með fölrauðum lit. Þannig fellur alltaf eitthvert ljós á tunglið og það verður aldrei svart.

Tunglmyrkvi verður aðeins við fullt tungl, þ.e. þegar jörðin liggur í beinni línu milli sólar og tungls. Maður vonar bara að það verði heiðskírt.


Afram um McNaugt

Skýjaslæða skyggndi á hugsanlega sýn á McNaugt við sólsetur (kl. 16.02), en ef skyggni leyfir á morgun, þá er plottið fyrir miðvikudaginn 10. jan. að finna hér á þessum myndum teknar úr Starry Night Pro .


McNaught halastjarnan

Náði þessum (og fleiri) af McNaught í morgun. Hlakka til sólarlagsins, hvort skilyrðin leyfi myndatöku.

Astronomy Picture of the day

Ferill halastjörnunnar

Fleiri myndir eftir Michael Jager o.fl.


Plútónaður

Félagi minn Kristján sendi mér skemmitlega grein frá BBC um val á nýyrði hjá Bandaríkjamönnum fyrir árið 2006 hjá The American Dialect Society eða ADS. Þetta var í 17. skipti sem félagsskapur málfræðinga o.fl. komu saman og völdu núna orðið "Plutoed" sem orð ársins. Ætli það myndi ekki leggast út sem "plútónaður" eða "plútóaður" og í merkingunni að vera settur skör neðar eða sviptur tign í einhverju formi ("demoted", "devalued").

Mér finnst þetta ekki síst fyndið í ljósi ákvörðunar hins alþjóðlega félags stjörnufræðinga sem ákváðu á síðasta ári að Plútó skyldi ekki lengur vera meðal reikistjarnanna í sólkerfinu okkar og fækkuðu þeim þar með úr 9 í 8. Spurning hvort prinsippið eigi að ráða hér eða hefðin síðan á fyrri hluta 20. aldar? Dæmi hver um sig, ég sjálfur reikna með að kalla Plútó níundu reikistjörnuna og eftirláta stærri reikistjörnum, sem eiga eftir að finnast í kerfinu okkar, falla undir smástirnishugtak vísindamannanna.

Kveðjur frá Charon....


Tunglbogi út af Gróttu

Í rigningaáhlaupinu í gærkvöld hér við höfuðborgarsvæðið tók ég sénsinn á að ná að sjá tunglboga í myrkrinu. Ég fór út að Gróttuvita og vit menn, þarna blasti við einn sá skærasti og heillegasti tunglbogi sem ég hef séð. Nema þegar til átti að taka og ljósmynda fyrirbærið, þá klikkaði þrífóturinn eitthvað og á meðan ég brölti í myrkrinu við að koma fætinum saman og vélinni upp, þá hvarf boginn hægt og hljótt í rigninguna.

Kannski að einhver út á Seltjarnarnesi hafi séð bogann bregða fyrir og náð mynd?

Eftir blótið og fýluna náði ég þó ágætis myndum af vitanum og skipi siglandi framhjá í suðurátt. Það var með öflugan ljóskastara beint upp í loftið og magnað sjónarspil að sjá ljósgeislann leika um í rigningarkófinu.

Síðar um kvöldið fylgdist ég með skýjaflákunum skríða að landi hjá Veðurstofunni og mæli eindregið með þessari slóð til að fylgjast með úrkomu.

Jæja, líklega næ ég ekki boga aftur með þessu tungli, en það eru 11 full tungl eftir af þessu ári og ef reynslan hefur kennt manni eitthvað, þá má búast við rigningu samfara einhverju þeirra.

Meira síðar


Meira um regnboga

Ég tók saman lýsinguna á regnboga eftir Steve Beeson á Patterns of Nature og birti hana hérna til gamans.

Regnbogi myndast á hring sem liggur í kringum mótsólarpunkt áhorfandans. Hver og einn sér sinn sérstaka regnboga því hann miðast við afstöðu áhorfandans hverju sinni. Tveir áhorfendur með meters millibili sjá sinn hvorn regnbogann. Eins og sjá má (Skýringam. 06) er regnbogi í raun heill "regnhringur", en sjóndeildarhringurinn sker hann u.þ.b. til hálfs. Það er samt til dæmi um heilan regnboga, en það er þegar þú sérð hann út um glugga á háfleygri flugvél. Sumir kannast við þetta, að sjá skuggadíl af flugvélinni andstætt sólu og hringinn í kringum hana er heill regnbogi.

Mótsólarpunktur er í skugganum af höfðinu þínu. Með sólina í bakið, þá liggur sá skuggi eðlilega einhver staðar á jörðinni, eða öllu heldur einhver staðar neðan sjóndeildarhringsins. Frá skugganum, í gegnum höfuðið og upp í sólina liggur ímynduð mótsólarpunktslína.


Ef þú sérð fyrir þér augun á þér sem punkt á þessari línu og út frá honum liggi keila með mótsólarpunktslínuna sem miðjuás, þá ertu komin með bogann sem regnboginn situr á. Þessi keila er með hornin 40,6° og 42° miðað við línuna í mótsólarpunktinn, þ.e. á því svæði brjóta regndroparnir upp sólarljósið í litrófið.


Allir regndropar í hringnum á milli 40,6° og 42° endurvarpa sólarljósi á venjulegan máta en þeir brjóta ljósgeislana einnig upp og spegla þá til baka í augu áhorfandans. Hvar sem dropi er staðsettur á boganum, brýtur hann upp ljósgeisla sólarinnar og speglar ákveðnum hluta úr litrófinu, rautt yst í boganum, svo gult, því næst blátt og að lokum yfir í fjólublátt. Hver litur hefur sína gráðu í ljósbrotinu og þess vegna ræður staðsetning dropans öllu um hvaða litur kemur í augu áhorfandans.


Dæmi eru um tvöfaldan regnboga. Þú hefur kannski séð slíkan einhvern tíma. Næst þegar það ber fyrir augu skaltu veita nokkrum atriðum athygli. Á milli boganna og fyrir utan kann að vera misdimm eða misbjört svæði og ytri regnboginn er vanalega daufari og að sama skapi spegilmynd innri bogans, þ.e. byrjar á rauðu innst og endar á bláu eða fjólubláu ljósi yst.


Tvöfaldur regnbogi myndast þegar sólarljósið endurspeglast tvisvar í regndropum hátt í úrkomusvæðinu. Þess vegna er hann mun daufari og ljósbrotið endar öfugt í augum áhorfandans miðað við innri regnbogan. Rauði hluti ytri regnbogans er innst í honum öfugt við innri bogann. Ytri boginn er í raun regnbogi númer tvö, innri boginn er aðalregnboginn.

Mundu svo að regnboginn sem þú sérð er aðeins þinn og gullið undir honum nærðu aldrei.


Tunglbogi.

Ég hef tvisvar séð tunglboga bregða fyrir hér á landi. En það er í raun regnbogi að næturlagi myndaður af geislum tunglsins. Í bæði skiptin var fullt tungl samhliða skúraleiðingum, samt ekki svo skýjað að tunglið brytist ekki í gegn.

Það sem bar fyrir augu var mjög daufur hvítur regnbogi. Ég náði að mynda bogann í seinna skiptið og með því að "ofkeyra" litina í myndforriti sést að um er að ræða hefðbundið regnbogamunstur; rautt yst, gult, grænt og blátt innst. Því miður var ég ekki með þrífót og átti erfitt um vik að ná almennilegri mynd, en engu að síður - í hvert sinn sem það ber saman, fullt tungl og skúraleiðingar, þá má reyna aftur.

Þennan tvöfalda regnboga bar fyrir augu í Hvítársíðunni í fyrravor. Litamunurinn milli innri og ytri bogans stafar af því að sólarljósið endurkastast meira að okkur en frá þegar miðað er við innri regnbogakeiluna. Ytri keilan, þ.e. droparnir í því skýi, endurspegla sólarljósinu meira frá okkur en að. Allir regndroparnir í báðum keilunum endurspegla einhverju ljósi, þeir sem mynda bogann brjóta það upp í litaspectrumið og mynda litapallettuna. Aðrir endurspegla hvítu sólarljósinu beint. Þess vegna er birtumunurinn svona áberandi.

Góð skýring á regnbogum, ljósspeglun í vatnsdropum, tvöfaldir regnbogar o.fl. er að finna hér:
Patterns in Nature - Light and Optics


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband