14.1.2007 | 21:29
Tunglmyrkvi 3.-4. mars
Eða "The Dark Side of the Moon is actually red"
Koma McNaugt (sjá Astronomy Picture of the Day) um daginn rak mann af stað með að athuga næstu viðburði á stjörnuhvelfingunni. Tunglmyrkvinn 3.-4. mars ætti að falla undir þann flokk , en þá gengur tunglið inn í skugga jarðar á laugardagskvöldið 3. mars og úr honum aftur rétt upp úr miðnætti. Á vef NASA er tímataflan sett upp miðað við heimstíma (UT) sem er í raun Greenwich klukkan okkar óbreytt.
Hálfskuggi hefst: 20:18:11 UT
Deildarmyrkvi hefst: 21:30:22 UT
Almyrkvi hefst: 22:44:13 UT
Almyrkvi: 23:20:56 UT
Almyrkvi endar: 23:57:37 UT
Deildarmyrkvi endar: 01:11:28 UT
Hálfskuggi endar: 02:23:44 UT
Tunglið kemur upp kl. 18.24 á laugardaginn og rétt fyrir kl. 20 er það í háaustri og um 7° yfir sjóndeildarhringnum. Kl. 20.18 gengur tunglið inn í hálfskuggann (penumbra) og þar með dregur jörðina fyrir sólu séð frá yfirborði tunglsins. Þar með hefst rúmlega 6 klukkustunda myrkvun tunglsins og endar rétt fyrir hálf þrjú aðfararnótt sunnudagsins.
Hápunktur almyrkvans er nákvæmlega kl. 23.20 og er tunglið þá orðið föl-appelsínugult eða koparlitað. Tunglmyrkvi er ekki eins og sólmyrkvi, þegar hrein og skýr tunglskífa gengur fyrir sólu. Vegna eðlismunar milli sólar, jarðar og tunglsins, þá er skugginn af jörðinni á tunglið "óhreinn" ef svo mætti að orði komast. Geislar sólarinnar sem sleikja yfirborð jarðar fara í raun í gegnum lofthjúp hennar með þeim afleiðingum að blátt litróf ljósins sundrast í allar áttir en rauðu geislarnir halda áfram. Lofthjúpurinn brýtur þannig upp ljósið og síar bláa hluta þess frá. Rauðu geislarnir halda áfram, sumir beinustu leið en aðrir brotna í lofthjúpnum og sveigja inn í skuggann og lýsa tunglið upp með fölrauðum lit. Þannig fellur alltaf eitthvert ljós á tunglið og það verður aldrei svart.
Tunglmyrkvi verður aðeins við fullt tungl, þ.e. þegar jörðin liggur í beinni línu milli sólar og tungls. Maður vonar bara að það verði heiðskírt.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:43 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Finnur
Takk fyrir að minna á þetta. Ég ætla að skrá þetta í Outlook dagbókina til öryggis :-)
Einnig þakka ég fyrri annan fróðleik á síðum þínum.
Með kveðju, Ágúst
Ágúst H Bjarnason, 15.1.2007 kl. 15:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.