18.3.2007 | 23:27
Hrævareldur
Hrævareldur (St. Elmo's Fire) og mýrarljós (Will o'the Wisp - lat.: ignus fatus)
(St. Elmo's Fire-myndin er annar pakki, og ekki síðri, frá árinu 1985 - sjá Internet Movie Database)
Ég hef einu sinni séð hrævareld á útvarpsmastri í Eyjafirði fyrir mörgum árum. Ég man lítið eftir kringumstæðum nema hvað ég var í "ljósmyndaleiðangri" í ljósaskiptum að sumarlagi. Þetta var rétt við Skjaldarvík, við útvarpsmastur rétt fyrir norðan við Akureyri. Mig langaði að taka ljósmynd upp eftir mastrinu að innanverðu og greip um einn burðarbitann. Þá var sem eins og að ég hefði króað af flugu og að hún væri að kitla mig í lófann. Ég kippti að mér hendinn og sá mér til undrunar að ég var töluvert brenndur og með far í lófanum eftir bitann.
Ég hafði leitt rafstraum um mig úr mastrinu niður í jörð. Þá leit ég upp eftir mastrinu og sá mjög daufan og bláleitan bjarma efst uppi í mastrinu.
Hvað um það, ekki hef ég séð svona aftur. En ég lærði þá hvað þetta var og að hrævareldur væri þekkt fyrirbrigði úr sjómennsku þegar hann myndast á siglutrjám og öðru útistandandi af skipum og þá við rafmögnuð veðurskilyrði. Í dag er fyrirbrigðið alþekkt hjá flugmönnum þegar flogið er í gegnum rafmagnað veðurkerfi, þrumubólstrum eða "sellum" eins og það er kallað. Þá vill hrævareldur myndast utan á vélunum og leikur um þær með ofsafengnari hætti en sá á möstrum skipa. Taka skal fram ljósagangurinn er alveg hættulaus fluginu og er aðalega skemmtun eða til ama fyrir flugmenn (sem kveikja gjarnan á ljósunum í flugstjórnarklefanum á meðan leiftrin ganga yfir).
Á Vísindavefnum er vísað í heimild frá fyrri öldum (Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar) um notkun orðsins og enn fremur sagt frá orðunum "hræljós" og "hrælog" úr Sturlungasögu. St. Elmo's Fire á enska vísu er nefnt eftir verndardýrlingin sjófarenda (Erasmus Elmo - sjá wikipedia.com).
Það sem ég hef náð að rekja saman um orsakir hrævarelds er þegar andrúmsloftið hleðst upp af mínushlöðnum elektrónum og þær "hlaupa" yfir í næsta "skaut". Skautið er þá t.d. siglutré, loftnet á bifreið, jafnvel höfuð á manneskju, hvöss horn á húsþökum o.s.frv. Mér dettur í hug að fyrirbrigðið sé líklegra að sýna sig á síður jarðtengdum skautum, þannig væri ólíklegra að sjá þetta á nýju raflínumastri en gömlum trésímastaur, en það er bara getgáta. Hvers vegna jöfnunin á sér stað á mjög afmörkuðu svæði og með svona "rólegum" hætti kann ég ekki að fara með og þrátt fyrir að hafa tekið til á internetinu í marga mánuði, þá hef ég ekki fundið skýringu á málinu. Þetta er t.d. ólíkt eldingu að því marki, að hrævareldurinn er merki um að hleðslur séu að jafnast út á "rólegri" máta en þegar eldingu lýstur niður. Hrævareldur er því nær því að vera núningur milli plús- og mínushlaðinna elektróna, frekar en ofsafengin hleðslujöfnun í formi eldingar. Hver eðlisfræðin er sem sagt á bakvið fyrirbrigðið kann ég ekki að fara með nákvæmlega, en kannski mætti líka glöggva sig á málinu í Vísindaveröld Húsdýragarðsins?
Mýrarljós
Mýrarljós er skv. mínum skilningi allt önnur Ella. Ef hrævareldur er afrakstur veðurfyrirbrigðis, þá er mýrarljós meira jarðfræði- eða líffræðilegt. Þá meina ég að gas frá rotnandi gróðri, dýraúrgangi eða dýraleifum veldur mýrareldi, en elektrónískar hleðslur valda hrævareldi. Ég hef aldrei séð mýrarljós, en að gas brjóti sér leið á yfirborð frá rotnandi gróðurleifum er þekkt fyrirbrigði (þ.m.a. getgátur um að Lagarfljótsormurinn sé útskýrður þannig). Sagt er frá því að vetnisfosfórsambönd og metangas oxiderist og myndi þetta ljós.
Mýrarljós er þekkt á enskun undir nafninu Will o'the Wisp, á latínu; ignus fatuus/ignus fatus (ignes fatui) [sjá Wikipedia]. Einnig kallað Will with the Wisp, Jack with a Lantern eða Jack-o'lantern. Villuljós er samheiti yfir ljósið, villandi fyrir ferðamenn í rökkrinu skv. sögusögnum. Gjarnan sagt frá fosfórlituðu smáljósi sem bregður fyrir í skamma stund. Ekki viðvarandi eldi sem lýsir upp umhverfið eins og hrævareldur gerir.
Gaman væri að fá viðbrögð við þessum upplýsingum og hvort einhver hafi barið svona augum hér á landi.
"Off the record":
Í tiltektinni á internetinu fann ég m.a. þetta undir "ignus fatui", sel það ekki dýrara en ég gúgglaði það: Ignes Fatui drykkur
1 ½ oz gin
¾ oz Green Chartreuse
½ mtsk Galliano
½ oz lime cordial
1 skvetta af Blue Curacao
1 skvetta af Pernod
Hristist saman með muldum ís.
Eldhnöttur - "Ball lightning"
Sumir kunna að muna eftir raunum Tinna (Sjö kraftmiklar kristalskúlur) þegar ógnvænlegur eldhnöttur gekk á eftir honum og félögum hans. Kannski var Hergé að vitna til "Ball Light" í þessu tilfelli, hvur veit. Hvað um það, eldhnöttur af þessum toga birtist gjarnan samfara þrumu- og eldingaveðri og lýsir sé þannig að ljóskúla á stærð við körfubolta skýst um á miklum hraða og hverfur síðan án nokkurs fyrirvara - fuðri upp á örskotsstundu. Það er lítið um heimildir að finna, síst um eðli fyrirbrigðisins, en líklegast er um að ræða fyrirbrigði skylt eða eins og eldingar. Fyrirbrigðið var þekkt á seinni stríðsárunum og kallað "Foo Fighter". Þá kom gjarnan fyrir að ljóskúla, eða ljóskúlur eltu stríðsflugvélar og gilti einu um hvað flugmennirnir brugðu fyrir sér í undanhlaupunum, alltaf elti ljósið uns það hvarf eins skjótt og það birtist.
Einhver staðar sá ég líka að tengsl væru á milli eldhnatta og jarðhræringa. Að tilkoma eldhnatta niðri við jörðu væri í samhengi við jarðskjálfta og yfirborðsspennun sem þeim getur fylgt.
Hér er leitt getum að svona ljóskúlu á YouTube: Ball Light
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:34 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.