Þung ský á himni

 Eða hvað vegur eitt ský mikið?

Álftir yfir Þingvallavatni

Á leiðinni til Þingvalla einn góðviðrisdag fyrir ekki löngu datt mér í hug enn ein óþurftin* eins og svo oft áður. Ég var að dást að góðviðrisskýjunum og bar þau saman við mistrið og svifrykið sem blasti við sunnlendingum sem og fleirum í hvassviðrinu í sumarlok. Svo rammt kvað að þykkninu að ekki sást í Esju frá Reykjavík þegar verst lét. En þennan dag var svo sannarlega annað upp á teningnum. Lungamjúkir hnoðrar svifu yfir landið og lofuðu góðu. Heimkynni engla sagði einhver, svo létt og mjúk og hlýleg. Eða hvað?
 
Cloud1

Yfir Skarðsheiðinni sveif einn bólstri, heldur stærri en nágrannarnir og ekki laust við að hálfgerður steðji væri að myndast. Ég velti fyrir mér hvort hann væri nokkurskonar fordyri að síðra veðurlagi uppi í Borgarfirði og áfram norður. Það er stundum svo, að landslagið skiptir veðrinu niður í hólf – svona eins og það getur gert hér á Íslandi með heiðar og fjöll við 1.000 metrana. Hvað um það. Mér reiknaðist til að stærð hans væri ca. 3 km. á breidd, líklega sama dýpt og hæðin jafnvel 5 km. Umreiknað í rúmmál, þá værum við með 45 km³ af skýi. Miðað við forsendur sem ég fann á vef NOAA (National Oceanic and Atmospheric Administration), þá vó þetta ský sem ég sá hvorki meira né minna en 45 milljón tonn eða 45.135.000.000 kg. Það samsvarar um það bil 130.000 stykkjum af Boeing 747 Jumbo Jet – fullhlöðnum.
 
Cloud2 
Forsendurnar eru þær skv. upplýsingum NOAA að einn rúmmetri af vatnsmettuðu lofti í 2 km hæð vegur 1,003 kg. Á móti kemur að venjulegt andrúmsloft vegur í raun meira, eða 1,007 kg/m³. Þetta þýðir að eðlismassi „venjulegs“ lofts er aðeins meiri en hefðbundins skýs, þess vegna svífur skýið í loftunum því það er í raun léttara. Eins rúmmetra ský í tveggja km hæð vegur 1,003 kg og flýtur ofan á 2.014 tonnum af andrúmslofti.
 
Og mér fannst svo létt yfir þessum góðviðrisskýjum.
 
*Useless Information. 

Úlfur og gíll við mána...

Mánagíll og úlfur. 

Náði þessari mynd af úlf og gíl um mánann, 22° rosabaug og ef grannt er skoðað má greina daufan tangent boga efst. Sjá stærra eintak hér!

Tekið á Akureyri að kvöldi Föstudagsins langa, 21. mars. 


Tunglmyrkvinn 21. febrúar 2008

Tunglmyrkvi 21. feb. 2008

Ekki náði maður að njóta myrkvans sem skyldi 21. feb. s.l. Skýjahula var fyrir og lítið sást til mánans. Þessa mynd náði ég þó að smella af gjörningnum, en því miður ekki eins og maður hefði kosið. Stærri mynd má finna á Flickrinu.

Umbra / Penumbra 

Þessi skýringamynd á við um ljósmyndina hér að ofan og sýnir skuggann og hálfskuggann á því augnabliki sem ljósmyndin var tekin. 

 


Norðurljós - fyrri hluti

Hvítársíða

Sjá fleiri myndir hér á Flickrinu

Í kringum mánaðarmót janúars og febrúar voru norðurljós nokkuð glæsileg og tilkomumikil séð héðan frá Íslandi og reyndar svo að þau voru í fréttum á mbl.is. Mér finnst, eins og líklega flestum, alltaf heillandi að fylgjast með ljósadýrðinni dansa yfir himininn, hvíta, bláa, gula, rauða og græna. Það fylgdi fréttinni að frost væri mikið og norðurljós áberandi. Sagt var að aðstæður til skoðunar væru góðar enda miklar stillur og frosthörkur miklar. Þótt það sé ekki tengt saman í fréttinni, þá er það því miður útbreiddur misskilningur að norðurljós komi með kulda eða sérstökum frosthörkum. Norðurljós eru langt fyrir ofan veðrahvolfið og frost eða funi hafa engin áhrif á gjörninginn. Hitt er annað mál eins og segir í fréttinni, að það fer oft saman norðurljósadýrð, gott skyggni á veturna með heiðríkju, miklu frosti og stillum. M.ö.o., fyrirtaksaðstæður til að njóta norðurljósa.

Sólblettir, sólgos og sólvindar

Sólgos

Norðurljós eiga uppruna sinn á yfirborði sólar. Kóróna sólar þeytir gasi út í sólkerfið í formi gass sem í eru elektrónur og prótónur. Þetta kallas sólvindar, en þeir berast með 400-600 km. hraða á sekúndu allt út fyrir endimörk sólkerfisins okkar. Við og við eiga sér stórkostleg sólgos í sólblettum við miðbaug sólar. Við slíkar hamfarir berst gífurlegur stormur elektróna og prótóna til jarða á nokkrum klukkustundum, á u.þ.b. 21 klst. á 1.000–2.000 km hraða á sekúndu.

Til jarðar

Segulhvolf

Þegar gasið kemur til jarðar lendir það í segulsviði þess og þar með taka kraftar jarðar við. Í segulsviði jarðar sogast gaseindirnar niður svelgi við suður- og norðurpólinn, en hluti gasins verður innlyksa í lögum í segulhvolfinu. Þar velkist það um uns það sogast niður að jörðu eða þeytist aftur út í geiminn. Segulhvolf jarðar er lagskipt með kraftalínum sem liggja frá suðurpólnum að norðurpólnum. Við hvorn pólinn fyrir sig koma kraftalínurnar niður að jörðinni á hringlaga kafla umleikis segulskautin. Þessi hringlaga kafli eða baugur er á ákveðnum breiddargráðum og einmitt á því svæði sjást norðurljós.

Stormar og hviður í segulhvolfinu

Segulpóllinn

Þar sem kraftalínurnar koma niður að jörðu við pólana myndast nokkurs konar snertiflötur fyrir gaseindir utan úr geimnum og efnissambanda frá lofthjúp jarðar. Þarna rekast prótónurnar og elektrónurnar frá sólinni við efnið í efstu lögum lofthjúpsins í ofsafengnum árekstrum. Í átökunum tekur efnið frá lofthjúpnum til sín gaseindirnar sem viðbótarorku, örvast í skamman tíma og losar sig síðan við umframorkuna í formi ljóss. Þannig myndast norðurljósin.

Meira síðar... 


Alþjóðlegt ár stjörnufræðinnar 2009

Vetrarbrautin

Mynd: SkyMaps

Á vef International Year of Astromony 2009 segir m.a. í formála: "

The vision of the International Year of Astronomy (IYA2009) is to help the citizens of the world rediscover their place in the Universe through the day- and night time sky, and thereby engage a personal sense of wonder and discovery."

Sjá frekar hér á vef IYA2009

Þetta eru einstaklega ánægjulegar fréttir, að 2009 skuli tileinkað stjörnfræðinni af hálfu Sameinuðu þjóðanna og frábært tækifæri að efla meðvitun og glæða áhuga fólks á fræðinni. Minn er álíka, og hjá svo mörgum, háður duttlungum fréttaveitu, sýnilegra uppákoma á himni og frístunda minna til að sinna athugunu og kannski þess helst að vafra um vefinn í leit að gögnum að lesa og læra um.

Þetta verður eflaust spennandi tími m.t.t. upplýsingaveitu fræðistofnana, líklega hér á Íslandi einnig í formi fyrirlestra og annarra uppákoma. Enda hef ég þá trú að aukinn skilningur á gangi himintunglanna auki á skilning á okkur sjálfum og kannski helst smæð okkar og lítilvægi gangvart þessu gígantíska sköpunarverki sem alheimurinn er.

Með von um gleðileg jól og ánægjuleg áramót. Bloggumst á nýju ári.

Finnur Jóhannsson Malmquist 


21. febrúar kl. 03.00, tunglmyrkvi

Tungmyrkvi feb. 2008

 

Aðfararnótt fimmtudagsins 21. febrúar verður tunglmyrkvi sem m.a. sést héðan frá Íslandi. Hann hefst rúmlega hálfeitt rétt eftir miðnætti og endar rúmlega korter yfir sex um morguninn. Nákvæmar tölulegar upplýsingar má finna hérna hjá NASA

Þessi myrkvi er örlítið styttri en sá sem við sáum í byrjun mars 2007, en það munast sosum ekki nema um 12 mínútum á fullum myrkva (Total Eclipse). Í mars var hann 37 mín., en núna verður hann 25. mín.

Tímasetningarnar eru þessar helstar: 

 

  • Deildarmyrkvi hefst (Penumbra): 00:34:59
  • UTAlmyrkvi hefst (Umbra): 01:42:59 UT
  • Almyrkvi: 03:00:34 UT
  • Almyrkvi endar/deildarmyrkvi hefst: 03:51:32 UT
  • Deildarmyrkvi: 05:09:07 UT
  • Deildarmyrka (tunglmyrkva) lýkur: 06:17:16 UT

 

Þessi myrkvi er nokkru síðar um nóttina en sá í mars, en hámarkið er kl. 03 um nóttina. Það er náttúrulega von um að það verði heiðskýrt og gott veður til skoðunar og ljósmyndunar. Hámyrkvinn mun eiga sér stað í suðvestri og í um 30° upp á himni. Stjörnumerkið Ljónið verður baksviðs og Regulus til hægri og reikistjarnan Satúrnus til vinstri.

Ég gerði nokkrar tilraunir til ljósmyndunar í mars s.l., en tókst misvel upp. Ég er með ágætis tækjakost, en vantar upp á reynsluna. Gaman væri að heyra ráð og reynslusögur lesenda um næturljósmyndun af þessu tagi. Spurning hvor menn kannist við ƒ-regluna sem mig minnir að sé: ƒ-16 + Speed 160 + ISO 160. Kannski  bara bull. Endilega sendið línu um hvernig best sé haga sér við aðstæður sem þessar.


Tunglmyrkvi 21. febrúar 2008

Maður er sosum voða upptekinn af hátíðardögunum framundan, en ég er farinn að hlakka til tunglmyrkvans í febrúar líka. Þess utan hef ég nú ekki verið duglegur að færa "useless info" hér inn á bloggið, stefnan er að bæta úr því á næstunni.

Tunglmyrkvinn...

Máninn, fullt tunglHann er aðfararnótt fimmtudagsins 21. febrúar, hefst um 00.40, nær hámarki um kl. 03.30 og lýkur um 06.15.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Stærri útgáfa og í réttari rammahlutföllum er að finna hér, 1280x640 px mpg-skjal, 2,5 MB: 
http://www.alphabet.is/sources/global/LunarEclipse21022008.mpg

Meira síðar.


Hrævareldur

Hrævareldur (St. Elmo's Fire) og mýrarljós (Will o'the Wisp - lat.: ignus fatus)

(St. Elmo's Fire-myndin er annar pakki, og ekki síðri, frá árinu 1985 - sjá Internet Movie Database)

Ég hef einu sinni séð hrævareld á útvarpsmastri í Eyjafirði fyrir mörgum árum. Ég man lítið eftir kringumstæðum nema hvað ég var í "ljósmyndaleiðangri" í ljósaskiptum að sumarlagi. Þetta var rétt við Skjaldarvík, við útvarpsmastur rétt fyrir norðan við Akureyri. Mig langaði að taka ljósmynd upp eftir mastrinu að innanverðu og greip um einn burðarbitann. Þá var sem eins og að ég hefði króað af flugu og að hún væri að kitla mig í lófann. Ég kippti að mér hendinn og sá mér til undrunar að ég var töluvert brenndur og með far í lófanum eftir bitann.

Ég hafði leitt rafstraum um mig úr mastrinu niður í jörð. Þá leit ég upp eftir mastrinu og sá mjög daufan og bláleitan bjarma efst uppi í mastrinu.

Hvað um það, ekki hef ég séð svona aftur. En ég lærði þá hvað þetta var og að hrævareldur væri þekkt fyrirbrigði úr sjómennsku þegar hann myndast á siglutrjám og öðru útistandandi af skipum og þá við rafmögnuð veðurskilyrði. Í dag er fyrirbrigðið alþekkt hjá flugmönnum þegar flogið er í gegnum rafmagnað veðurkerfi, þrumubólstrum eða "sellum" eins og það er kallað. Þá vill hrævareldur myndast utan á vélunum og leikur um þær með ofsafengnari hætti en sá á möstrum skipa. Taka skal fram ljósagangurinn er alveg hættulaus fluginu og er aðalega skemmtun eða til ama fyrir flugmenn (sem kveikja gjarnan á ljósunum í flugstjórnarklefanum á meðan leiftrin ganga yfir).

Hér á Youtube má m.a. sá hvernig hrævareldur leikur um framrúðu Amerískrar herflugvélar úr Persaflóastríðinu.

Á Vísindavefnum er vísað í heimild frá fyrri öldum (Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar) um notkun orðsins og enn fremur sagt frá orðunum "hræljós" og "hrælog" úr Sturlungasögu. St. Elmo's Fire á enska vísu er nefnt eftir verndardýrlingin sjófarenda (Erasmus Elmo - sjá wikipedia.com).

Það sem ég hef náð að rekja saman um orsakir hrævarelds er þegar andrúmsloftið hleðst upp af mínushlöðnum elektrónum og þær "hlaupa" yfir í næsta "skaut". Skautið er þá t.d. siglutré, loftnet á bifreið, jafnvel höfuð á manneskju, hvöss horn á húsþökum o.s.frv. Mér dettur í hug að fyrirbrigðið sé líklegra að sýna sig á síður jarðtengdum skautum, þannig væri ólíklegra að sjá þetta á nýju raflínumastri en gömlum trésímastaur, en það er bara getgáta. Hvers vegna jöfnunin á sér stað á mjög afmörkuðu svæði og með svona "rólegum" hætti kann ég ekki að fara með og þrátt fyrir að hafa tekið til á internetinu í marga mánuði, þá hef ég ekki fundið skýringu á málinu. Þetta er t.d. ólíkt eldingu að því marki, að hrævareldurinn er merki um að hleðslur séu að jafnast út á "rólegri" máta en þegar eldingu lýstur niður. Hrævareldur er því nær því að vera núningur milli plús- og mínushlaðinna elektróna, frekar en ofsafengin hleðslujöfnun í formi eldingar. Hver eðlisfræðin er sem sagt á bakvið fyrirbrigðið kann ég ekki að fara með nákvæmlega, en kannski mætti líka glöggva sig á málinu í Vísindaveröld Húsdýragarðsins?

Mýrarljós

Mýrarljós er skv. mínum skilningi allt önnur Ella. Ef hrævareldur er afrakstur veðurfyrirbrigðis, þá er mýrarljós meira jarðfræði- eða líffræðilegt. Þá meina ég að gas frá rotnandi gróðri, dýraúrgangi eða dýraleifum veldur mýrareldi, en elektrónískar hleðslur valda hrævareldi. Ég hef aldrei séð mýrarljós, en að gas brjóti sér leið á yfirborð frá rotnandi gróðurleifum er þekkt fyrirbrigði (þ.m.a. getgátur um að Lagarfljótsormurinn sé útskýrður þannig). Sagt er frá því að vetnisfosfórsambönd og metangas oxiderist og myndi þetta ljós.

Mýrarljós er þekkt á enskun undir nafninu Will o'the Wisp, á latínu; ignus fatuus/ignus fatus (ignes fatui) [sjá Wikipedia]. Einnig kallað Will with the Wisp, Jack with a Lantern eða Jack-o'lantern. Villuljós er samheiti yfir ljósið, villandi fyrir ferðamenn í rökkrinu skv. sögusögnum. Gjarnan sagt frá fosfórlituðu smáljósi sem bregður fyrir í skamma stund. Ekki viðvarandi eldi sem lýsir upp umhverfið eins og hrævareldur gerir.

Gaman væri að fá viðbrögð við þessum upplýsingum og hvort einhver hafi barið svona augum hér á landi.

"Off the record":
Í tiltektinni á internetinu fann ég m.a. þetta undir "ignus fatui", sel það ekki dýrara en ég gúgglaði það: Ignes Fatui drykkur
1 ½ oz gin
¾ oz Green Chartreuse
½ mtsk Galliano
½ oz lime cordial
1 skvetta af Blue Curacao
1 skvetta af Pernod
Hristist saman með muldum ís.

Eldhnöttur - "Ball lightning"


Sumir kunna að muna eftir raunum Tinna (Sjö kraftmiklar kristalskúlur) þegar ógnvænlegur eldhnöttur gekk á eftir honum og félögum hans. Kannski var Hergé að vitna til "Ball Light" í þessu tilfelli, hvur veit. Hvað um það, eldhnöttur af þessum toga birtist gjarnan samfara þrumu- og eldingaveðri og lýsir sé þannig að ljóskúla á stærð við körfubolta skýst um á miklum hraða og hverfur síðan án nokkurs fyrirvara - fuðri upp á örskotsstundu. Það er lítið um heimildir að finna, síst um eðli fyrirbrigðisins, en líklegast er um að ræða fyrirbrigði skylt eða eins og eldingar. Fyrirbrigðið var þekkt á seinni stríðsárunum og kallað "Foo Fighter". Þá kom gjarnan fyrir að ljóskúla, eða ljóskúlur eltu stríðsflugvélar og gilti einu um hvað flugmennirnir brugðu fyrir sér í undanhlaupunum, alltaf elti ljósið uns það hvarf eins skjótt og það birtist.

Einhver staðar sá ég líka að tengsl væru á milli eldhnatta og jarðhræringa. Að tilkoma eldhnatta niðri við jörðu væri í samhengi við jarðskjálfta og yfirborðsspennun sem þeim getur fylgt.

Hér er leitt getum að svona ljóskúlu á YouTube: Ball Light


Aðeins meira um snæsnigla

Þórhallur Ragnarsson í Holtakoti Þingeyjasveit sendi mér myndir af snæsniglum sem hann tók sunnudaginn 4. mars s.l. á túnunum við bæinn. Þetta er einmitt skólabókardæmi um sniglana sem ég var að forvitnast um hér á blogginu.

Myndirnar og síða Þórhalls er að finna hér:

Mynd 1 Mynd 2 Vefsíða Holtakots


Tunglmyrkvinn úr Borgarfirði og Kaldadal

Ekki náði ég góðum myndum af tunglmyrkvanum. Ég lenti í því, eins og flestir hér á landi, að ský dró fyrir herlegheitin þegar hæst stóð. En hvað um það.

Ég fór alla leið upp að Langjökli, á afleggjarann frá Kaldadalsleið að jökli, og þar sá ég myrkvann hefjast.

Ég tók nokkrar myndir, en því miður voru flestar útkomurnar undir væntingum. Þegar almyrkvinn gekk í garð varð allt biksvart þarna undir jökli. Einstaka stjörnur skinu, en því miður sást koparlitt tunglið ekki vegna útkomubakka sem gekk yfir.

Síðar náði ég nokkrum myndum af myrkvanum þegar tunglið gekk úr skugganum, eða rétt upp úr eitt.

Það eru nokkrar fleiri myndir hér á Flickr


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband