Eldingar á Íslandi.

Ég náði myndskeiði af eldingu slá niður í krana í Norðlingaholti sunnudaginn 10. des. sl. Ég var að koma til Reykjavíkur um vesturlandsveginn þegar ég tók eftir síendurteknum leiftrum handan Úlfarsfellsins. Sá ég ca. 8 leiftur og ákvað að renna í áttina að Heiðmörk/Bláfjallafólkvangnum til að sjá betur hamaganginn.

Ég lagði bifreiðinni minni við Morgunblaðshúsið og byrjaði að taka upp myndskeiðið á litla vasamyndavél. Panaði yfir sjóndeildarhringinn sem var ótrúlega þungur yfir að sjá. Dimmur og lágur skýjabakki gekk yfir frá suðri til norðurs með slyddu, rigningu og hagléli sitt á hvað. Eftir ca. 5 mínútur reif þessi elding sig í gegn og það var sem hún kæmi frá vinstri og niður í kranann í "lítilli" lykkju. Þruman var ekkert veigamikil, a.m.k. bjóst ég við meiru. Annað fannst mér merkilegt, en það var að ekkert amaði að rafkerfinu í byggingakrananum á eftir. Engin ljós blikkuðu eða slógu út. Líklegast er að voltin hafi þotið í gegnum burðavirkið aðeins og niður í jörð og með eldingavara efst. Ég hef ekki skoðað það nánar. En hvað um það, þarna lifnaði 30.000°C straumrönd við eitt augnablik og jafnaði rafhleðslur milli skýjahluta og jarðar.

Mínushlaðnar electrónur dragast saman í skýinu og brjótast í átt til jarðar í nokkurs konar leiðara eða straumrás og í óreglulegum stökkvum eða þrepum (stepped leader).
Á 5/1000 broti úr sekúndu og á tæplega 400 km hraða á sekúndu nær leiðarinn niður að jörð, en þar getur brotist upp önnur straumrás upp frá jörðu og í skýjastraumrásina. Þegar endar ná saman er kominn heil og óskipt rás með jónuðum mólekúlum sem virkar eins og öflugur rafmagnskapall.
Þá rjúka neikvæðar rafhleðslur efst í skýinu niður rásina á ógnarhraða. Þegar þær eru komnar niður að jörðinni er hamagangurinn orðinn það mikill að þær rekast á loftmólekúl í kringum og uppvið straumrásina og við það myndast neonljósið í eldingunni. Þessir árekstrar færastu upp með rásinni og neonljósið um leið og þá fyrst sést eldingin.
Þetta gerist á slíkum ógnarhraða að ómögulegt er að greina ganginn með berum augum. Á 1/10.000 úr sekúndu færist neonljósið upp straumrásina á allt að 98.000 km hraða á sekúndu.
Um leið og rafmagnið hleypur á milli myndast gífurlegur hiti í rásinni, eða um 30.000°C (sólin er 5.500°C á yfirborðinu). Við þessa hitabreytingu hvellspringur loftið í kringum straumrásina, sem nú er orðin elding, og við þá sprengingu myndast þruman.
Um eina eldingu streymir um það bil 30-50 kílóamper og þær eiga það til með að fara allt upp í 120 kA.
Rafhleðslan getur talið allt að 500 megajoule og ef hægt væri, þá væri möguleiki að vinna úr því u.þ.b. 140.000 kílówattsstundir. En hér er um breytur að ræða sem enn er verið að rannsaka og vinna úr og kannski ekki allt sem sýnist.

Hér á landi er sjaldgæft að eldingum slái niður (og þessi mynd er mögulega eina sinnar tegundar héðan frá Íslandi), nema ef vera skyldi í ljósagangi í reykjabólstrum eldgoss.
Snæljós heitir það þegar elding gengur á milli skýjahluta og hrævareldur er fyrirbrigði af öðrum toga sem ég fjalla kannski um síðar.

Sjá:
Lightning e. Ron Hipschman.
Lightning á Wikipedia.
Frétt mbl.is 11. des. 2006.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Þakka þér fyrir skemmtilega mynd og grein. Til viðbótar við krækjurnar sem þú nefnir, þá er hér ein til viðbótar

http://www.vedur.is/athuganir/eldingar/ 

Ágúst H Bjarnason, 22.12.2006 kl. 20:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband