Meira um regnboga

Ég tók saman lýsinguna á regnboga eftir Steve Beeson á Patterns of Nature og birti hana hérna til gamans.

Regnbogi myndast á hring sem liggur í kringum mótsólarpunkt áhorfandans. Hver og einn sér sinn sérstaka regnboga því hann miðast við afstöðu áhorfandans hverju sinni. Tveir áhorfendur með meters millibili sjá sinn hvorn regnbogann. Eins og sjá má (Skýringam. 06) er regnbogi í raun heill "regnhringur", en sjóndeildarhringurinn sker hann u.þ.b. til hálfs. Það er samt til dæmi um heilan regnboga, en það er þegar þú sérð hann út um glugga á háfleygri flugvél. Sumir kannast við þetta, að sjá skuggadíl af flugvélinni andstætt sólu og hringinn í kringum hana er heill regnbogi.

Mótsólarpunktur er í skugganum af höfðinu þínu. Með sólina í bakið, þá liggur sá skuggi eðlilega einhver staðar á jörðinni, eða öllu heldur einhver staðar neðan sjóndeildarhringsins. Frá skugganum, í gegnum höfuðið og upp í sólina liggur ímynduð mótsólarpunktslína.


Ef þú sérð fyrir þér augun á þér sem punkt á þessari línu og út frá honum liggi keila með mótsólarpunktslínuna sem miðjuás, þá ertu komin með bogann sem regnboginn situr á. Þessi keila er með hornin 40,6° og 42° miðað við línuna í mótsólarpunktinn, þ.e. á því svæði brjóta regndroparnir upp sólarljósið í litrófið.


Allir regndropar í hringnum á milli 40,6° og 42° endurvarpa sólarljósi á venjulegan máta en þeir brjóta ljósgeislana einnig upp og spegla þá til baka í augu áhorfandans. Hvar sem dropi er staðsettur á boganum, brýtur hann upp ljósgeisla sólarinnar og speglar ákveðnum hluta úr litrófinu, rautt yst í boganum, svo gult, því næst blátt og að lokum yfir í fjólublátt. Hver litur hefur sína gráðu í ljósbrotinu og þess vegna ræður staðsetning dropans öllu um hvaða litur kemur í augu áhorfandans.


Dæmi eru um tvöfaldan regnboga. Þú hefur kannski séð slíkan einhvern tíma. Næst þegar það ber fyrir augu skaltu veita nokkrum atriðum athygli. Á milli boganna og fyrir utan kann að vera misdimm eða misbjört svæði og ytri regnboginn er vanalega daufari og að sama skapi spegilmynd innri bogans, þ.e. byrjar á rauðu innst og endar á bláu eða fjólubláu ljósi yst.


Tvöfaldur regnbogi myndast þegar sólarljósið endurspeglast tvisvar í regndropum hátt í úrkomusvæðinu. Þess vegna er hann mun daufari og ljósbrotið endar öfugt í augum áhorfandans miðað við innri regnbogan. Rauði hluti ytri regnbogans er innst í honum öfugt við innri bogann. Ytri boginn er í raun regnbogi númer tvö, innri boginn er aðalregnboginn.

Mundu svo að regnboginn sem þú sérð er aðeins þinn og gullið undir honum nærðu aldrei.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband