Tunglbogi út af Gróttu

Í rigningaáhlaupinu í gærkvöld hér við höfuðborgarsvæðið tók ég sénsinn á að ná að sjá tunglboga í myrkrinu. Ég fór út að Gróttuvita og vit menn, þarna blasti við einn sá skærasti og heillegasti tunglbogi sem ég hef séð. Nema þegar til átti að taka og ljósmynda fyrirbærið, þá klikkaði þrífóturinn eitthvað og á meðan ég brölti í myrkrinu við að koma fætinum saman og vélinni upp, þá hvarf boginn hægt og hljótt í rigninguna.

Kannski að einhver út á Seltjarnarnesi hafi séð bogann bregða fyrir og náð mynd?

Eftir blótið og fýluna náði ég þó ágætis myndum af vitanum og skipi siglandi framhjá í suðurátt. Það var með öflugan ljóskastara beint upp í loftið og magnað sjónarspil að sjá ljósgeislann leika um í rigningarkófinu.

Síðar um kvöldið fylgdist ég með skýjaflákunum skríða að landi hjá Veðurstofunni og mæli eindregið með þessari slóð til að fylgjast með úrkomu.

Jæja, líklega næ ég ekki boga aftur með þessu tungli, en það eru 11 full tungl eftir af þessu ári og ef reynslan hefur kennt manni eitthvað, þá má búast við rigningu samfara einhverju þeirra.

Meira síðar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband